Samræmi
Eitt kerfi fyrir alla gjaldtöku
Jafnræði
Óháð orkugjafa og samfélagslegum aðstæðum
Framtíð
Aðlögun að orkuskiptum og að framtíðarþróun
Gagnsæi
Gjald í samræmi við notkun vega
Einfaldleiki
Einfalt og notendavænt kerfi
Vegakerfið hefur að stórum hluta verið fjármagnað með olíu- og bensíngjöldum sem greidd eru fyrir notkun dísil- og bensínbíla af vegakerfinu þegar dælt er á bílinn. Fyrir meðalbensínbíl nema þau um 87 þúsund krónum á ári eða 7 þúsund krónur á mánuði. Með fjölgun rafmagns- og tengiltvinnbíla, sem greiða lítið eða ekkert fyrir notkun á vegakerfinu, og með fjölgun sparneytnari bíla hafa þessar tekjur dregist verulega saman. Ljóst er að þetta kerfi er að renna sitt skeið á enda og tekjur af því munu hverfa þegar orkuskiptum er náð. Fjármögnun vegasamgangna hefur því verið að veikjast á sama tíma og umferð hefur aukist. Þess vegna er nauðsynlegt að taka upp nýtt kerfi sem tryggir jafnræði í gjaldtöku og fjármögnun óháð orkugjöfum.
Í byrjun árs 2024 var tekið upp kílómetragjald fyrir akstur rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbíla í flokki fólks- og sendibíla. Gjaldið byggir á fjölda ekinna kílómetra og því munu þeir borga sem nota. Nýtt kerfi mun þannig endurspegla betur raunverulega notkun á vegasamgöngum en olíu- og bensíngjöld. Gjaldið ver 6 kr/km fyrir rafmagns- og vetnisbíla en 2 kr/km fyrir tengiltvinnbíla. Fyrir meðalrafmagnsbíl þarf því að greiða um 7 þúsund krónur á mánuði sem er álíka og greitt er fyrir notkun bensínbíls – þannig næst jafnræði í gjaldtöku fyrir akstur í vegakerfinu. Vegna annarra gjalda og hærri orkukostnaðar verður engu síður nærri tvöfalt dýrara að reka bensínbíl en rafmagnsbíl. Því verður áfram verulegur ávinningur af orkuskiptum fyrir bifreiðareigendur.
Árið 2025 er stefnt að því að kílómetragjald verði greitt fyrir notkun allra ökutækja í stað olíu- og bensíngjalda. Þá munu allir borga sem nota eftir fjölda ekinna kílómetra í samræmdu kerfi, þar sem tekið verði tillit til fleiri þátta eins og þyngd ökutækja umfram tiltekið lágmark. Fjármögnun vegasamgangna verður því óháð orkugjöfum og mun endurspegla betur álag á vegakerfið sem gerir fjármögnunina sjálfbærari til framtíðar. Kolefnisgjald verður áfram greitt fyrir notkun dísilolíu og bensíns vegna þeirra loftslagsáhrifa sem notkun þeirra orkugjafa veldur. Þessi framtíðarsýn byggir á því að jafnræði sé í gjaldtöku fyrir notkun vegasamgangna, óháð orkugjafa og eyðslu, með gagnsæjum og einföldum hætti til að tryggja trausta fjármögnun til framtíðar.
Rafmagnsbílar
Tengiltvinnbílar
Hlutfall rafmagns- og tengiltvinnbíla af fólksbílum í umferð hefur farið úr 5,4% árið 2019 í 20,3% 2023. Árið 2023 voru þeir 50% nýskráðra bíla eða um 80% ef bílaleigur eru ekki teknar með.
Álag á vegakerfið hefur aukist um 50% undanfarinn áratug. Árið 2022 óku fólksbílar 3,3 milljarða kílómetra á vegum landsins samanborið við 2,2 milljarða 2012. Fólksbílum á vegum landsins hefur fjölgað um 36% og hverjum bíl verið ekið 11% meira en áður. Með vaxandi álagi á vegina hefur þörfin fyrir viðhald og uppbyggingu aukist. Það kallar á trausta fjármögnun sem endurspeglar betur raunverulega notkun á vegakerfinu.
Umferð hefur aukist á vegum landsins
Tekjur af olíu- og bensíngjöldum hafa dregist saman um 30% frá árinu 2012, hvort sem horft er til gjalda á hvert ökutæki eða hlutfalls af landsframleiðslu. Ástæðan er að gjöldin miðast við eldsneytisnotkun en ekki raunverulega notkun á vegum. Því hefur þó sú jákvæða þróun, að hver bíll eyðir minna, leitt til minni tekna þrátt fyrir fleiri bíla og meiri akstur. Við það bættist að fram til ársins 2024 var lítið eða ekkert er greitt fyrir akstur rafmagns- og tengiltvinnbílar, rúmlega 20% eða um 50 þúsund bílar árið 2023.
Minna er greitt fyrir notkun vega
Núverandi kerfi byggist á notkun jarðefnaeldsneytis. Greidd eru olíu- eða bensíngjöld fyrir hvern lítra eldsneytis sem bílar nota. Þetta endurspeglar hins vegar ekki raunverulega notkun á vegunum. Jákvæð þróun yfir í sparneytnari bíla hefur leitt til þess að nú er hægt að fara fleiri kílómetra á færri lítrum sem þýðir að borgað er minna fyrir notkun veganna þrátt fyrir að ekið sé meira. Með orkuskiptum er stefnt að því að hætta á endanum að nota jarðefnaeldsneyti. Óbreytt fyrirkomulag gjaldtöku mun því ekki standa undir fjármögnun greiðra og öruggra samgangna um allt land til framtíðar. Tekjurnar hafa þegar dregist saman um 30% á einum áratug og með áframhaldandi orkuskiptum er ljóst að þær munu fjara út. Þess vegna þarf að ráðast í kerfisbreytingu sem tryggir þessa fjármögnun til framtíðar.
Orkuskipti draga ekki úr þörfinni fyrir greiðar og öruggar samgöngur – rafmagnsbílar þurfa líka góða vegi. Því er mikilvægt að taka upp nýtt fyrirkomulag gjaldtöku þar sem greitt er fyrir notkun allra ökutækja óháð orkugjafa. Með kílómetragjaldi verður notkun miðuð við ekna kílómetra í stað lítra af eldsneyti. Þannig munu allir borga í samræmi við notkun á vegakerfinu í stað eldsneytisnotkunar eins og nú er.
Árið 2024 verður kílómetragjald tekið upp fyrir notkun rafmagns-, tengilvinn- og vetnisbíla í flokki fólks- eða sendibifreiða. Það þýðir að þeir sem nota þannig bíla munu greiða kílómetragjald fyrir notkun vegasamgangna árið 2024. Þetta hefur ekki áhrif á þá sem nota dísil- eða bensínbifreiðar árið 2024.
Stefnt er að því að frá og með árinu 2025 verði greitt kílómetragjald fyrir notkun allra ökutækja.
Ef þú ert umráðamaður rafmagns-, tengiltvinn- eða vetnisbíls í flokki fólks- eða sendibifreiða þarft þú að skila inn kílómetrastöðuna á bílnum þínum. Þeir sem eiga í viðskiptum við rekstrarleigu og eru umráðamenn bifreiðar bera ábyrgð á álestri kílómetramælis og skráningu kílómetrastöðu. Það gerir þú á vefsíðunni Island.is eða snjallforriti Island.is. Aðrir kostir verða í boði fyrir þá sem ekki geta nýtt sér þessar leiðir, til dæmis með að fá sérstakan álestur faggiltra skoðunarstöðva. Ef þú ert umráðamaður dísil- eða bensínbíla þarft þú ekkert að gera vegna þeirra fyrir árið 2024.
Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi á Alþingi er gert ráð fyrir að árið 2024 verði kílómetragjald fyrir rafmagns- og vetnisbíla 6 krónur fyrir hvern ekinn kílómeter. Fyrir tengiltvinnbíla verður gjaldið lægra, eða 2 krónur á hvern kílómetra, þar sem slíkir bílar ganga einnig fyrir dísil eða bensíni og greiða dísil- og bensíngjöld fyrir þá notkun. Að auki er drægni tengiltvinnbíla æði misjöfn.
Sem dæmi má nefna að fyrir rafmagnsbíl sem ekið er sem svarar til meðalaksturs einkabifreiða hér á landi, eða 14 þúsund kílómetra á ári, verða því greiddar 84.000 krónur ári eða 7.000 krónur á mánuði.
Í dag greiða bílar sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti kílómetragjöld í formi vörugjalda á eldsneyti. Tengiltvinnbílar greiða þannig líka kílómetragjöld við kaup á eldsneyti, ef gengið er út frá því að slíkir bílar keyri á einhverjum hluta á jarðefnaeldsneyti þegar rafhlöðu þeirra þrýtur hleðslu.
Augljóst er að allur gangur er á því að hversu miklu leyti tengiltvinnbílar landsins aka á rafmagni. Rafhlaða eldri tengitvinnbíla getur farið niður í 10 til 20 kílómetra drægni á köldum vetrardögum. Þeir sem sækja vinnu á hverjum degi um langan veg keyra líka eflaust meira á jarðefnaeldsneyti samanborið við þá sem ekki þurfa að ferðast tugi kílómetra á hverjum degi.
Bestu upplýsingar sem völ er á benda til þess að tengiltvinnbílum sé að meðaltali ekið að minnsta kosti einn þriðja tímans á rafmagni, en í mesta lagi tæplega tvo þriðju tímans. Sú leið var því farin að innheimta einn þriðja af kílómetragjaldi rafmagnsbíla árinu 2024. Það er gert til að gæta sanngirni gagnvart því að aðgengi að hleðsluinnviðum er misjafnt milli landshluta.
Hafa ber í huga að upphæðir og fyrirkomulag kílómetragjalda árið 2024 eru tímabundin. Á árinu 2025 er gert ráð fyrir því allar fólksbifreiðar falli inn í kerfið og greiða sama kílómetragjald, óháð orkugjafa.
Rafmagnsbíll er bifreið sem er alfarið knúin rafmagni (100% rafmagn). Framleiðendur merkja rafmagnsbíla oft með skammstöfuninni „EV“ sem stendur fyrir „electric vehicle“ á ensku og hefur verið þýtt sem rafmagnsbíll á íslensku. Í daglegu tali eru rafmagnsbílar stundum kallaðir rafbílar, sem er þó samheiti yfir alla bíla sem geta gengið alfarið eða að hluta fyrir rafmagni og því bæði við rafmagnsbíla og tengiltvinnbíla.
Vetnisbíll er bifreið sem gengur alfarið fyrir vetni.
Tengiltvinnbíll er bifreið sem gengur fyrir rafmagni en getur jafnframt gengið fyrir jarðefnaeldsneyti – og hægt er að stinga í samband til að hlaða. Framleiðendur merkja rafmagnsbíla oft með skammstöfuninni PHEV sem stendur fyrir „plug-in hybrid electric vehicle“ á ensku og þýðir tengiltvinnbíl. Í daglegu tali kemur fyrir að tengiltvinnbílum sé ruglað saman við tvinnbíla (e. hybrid), en munurinn á þeim er að ekki er hægt að hlaða tvinnbíla og ganga þeir því nánast að öllu leyti fyrir jarðefnaeldsneyti. Ekki þarf að greiða kílómetragjald fyrir notkun tvinnbíla árið 2024 þar sem greidd eru olíu- eða bensíngjöld fyrir notkun þeirra eftir því hvort þeir eru knúnir dísilolíu eða bensíni.
Skoðunarstöðvar taka að sér álestur og skráningu kílómetrastöðu.
Til að afla fjármagns til uppbyggingar og viðhalds á vegkerfinu hefur þótt sanngjarnt að það sé greitt af þeim sem nota vegasamgöngur.
Núna er greitt fyrir þessa notkun með dísil- og bensíngjöldum. Þau hafa byggt á þeirri forsendu að eldsneytisnotkun endurspegli notkun á vegakerfinu. Þessi gjöld hafa því verið lögð á hvern seldan lítra af eldsneyti og greidd við dælu. Árið 2023 eru greiddar um 87 þúsund krónur fyrir notkun meðalbensínbíls, sem samsvarar um rúmlega 7 þúsund krónum á mánuði.
Nei, kílómetragjald mun ekki taka tillit til þyngdar fólksbíla árið 2024.
Þegar að því kemur að innleiða fleiri tegundir ökutækja í nýtt gjaldtökukerfi vegasamgangna munu farartæki umfram tiltekna lámarksþyngd greiða hærra kílómetragjald.
Fyrsta skrefið í innleiðingu kílómetragjald árið 2024 mun eingöngu hafa áhrif á þá sem nota rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbíla. Þessi hópur hefur ekki greitt sérstaklega fyrir notkun vega fram til þessa en mun árið 2024 byrja að gera það líkt og notendur annarra ökutækja gera í mynd vörugjalda á jarðefnaeldsneyti. Eignarhald á rafmagns- og tengiltvinnbílum er mun algengara í hærri tekjutíundum en þeim lægri og þar af leiðandi mun innleiðing kílómetragjalds árið 2024 hafa mest áhrif á tekjuhærri hópa samfélagsins.
Myndin hér að neðan sýnir hvernig eignarhald á bæði rafmagnsbílum og tengiltvinnbílum skiptist eftir tekjutíundum árið 2022, annars vegar á meðal einhleypra og hins vegar meðal samskattaðra (para í sambúð).
Fyrir rafmagnsbíla sýnir myndin að á meðal einhleypra eru um 64% rafmagnsbifreiða í eigu þeirra sem eru í þremur efstu tíundunum. Hjá samsköttuðum voru um 54% í eigu þriggja efstu tíunduna. Eignarhald á rafmagnsbílum fer svo minnkandi eftir því farið er niður tekjutíundirnar. Ef litið er til eignarhalds á tengiltvinnbifreiðum með sama hætti birtist svipuð mynd. Hjá einhleypum eru 61% tengiltvinnbifreiða í eigu þriggja efstu tíundanna og 49% hjá samsköttuðum.
Þetta bendir til þess að tekjuhærri hópar verði fyrir mestum áhrifum af fyrsta skrefi kerfisbreytingarinnar árið 2024. Það má þó gera ráð fyrir að hlutdeild rafmagnsbifreiða í bílaeign tekjuhópa verði smám saman jafnari á næstu árum eftir því sem verð rafmagnsbifreiða lækkar áfram í samanburði við aðra bíla og framboð þeirra á endursölumarkaði eykst.
Bílaleigur sem starfræktar eru hér á landi munu þurfa að greiða kílómetragjald af bílum í sinni eigu, rétt eins og allir aðrir. Það er síðan í höndum hverrar bílaleigu að ákveða hvort og þá hvernig hún innheimtir gjaldið af viðskiptavinum sínum.
Ferðafólk sem kemur hingað til lands með sínar eigin bifreiðar mun þurfa að greiða daggjald fyrir þá daga sem það er hér á landi sem farmflytjandi, það er sá aðili sem flytur bílinn til landsins, mun sjá um að innheimta.
Nei, því langstærstur hluti rafmagns- og tengiltvinnbifreiða sem gjaldið nær til árið 2024 eru staðsettir á höfuðborgarsvæðinu eða um þrír af hverjum fjórum.
Súluritið að neðan sýnir skiptingu bifreiðaeignar heimilanna á hverja 1000 íbúa fyrir rafmagnsbifreiðar og tengiltvinnbifreiðar.
Aflestur kílómetramæla á skoðunarstöðvum sýnir að meðalakstur á hverja bifreið er hvað mestur í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins en minnstur annars staðar á landsbyggðinni eins og meðfylgjandi graf sýnir.
Frekara niðurbrot niður á stök póstnúmer má sjá í grafinu hér að neðan. Miðað er við meðalakstur á ársgrundvelli í póstnúmerum þar sem fjöldi bifreiða í eigu einstaklinga er yfir þúsund talsins.
Já, það verður áfram töluverður fjárhagslegur ávinningur af því að vera á rafmagnsbíl fremur en bensínbíl með tilliti til orkukostnaðar.
Með innleiðingu kílómetragjalds er eitt markmiðið að tryggja jafnræði í gjaldtöku fyrir notkun vegasamgangna óháð orkugjafa bifreiðar. Þannig er gert ráð fyrir að árið 2024 verði greidd sambærileg upphæð fyrir notkun annars vegar rafmagnsbíls með kílómetragjaldi og hins vegar bensínbíls með bensíngjöldum – um sjö þúsund krónur á mánuði.
Þó að jafnræði verði við gjaldtöku fyrir notkun vegakerfisins þá verður annar kostnaður við rekstur bensínbíls töluvert meiri. Þegar helstu kostnaðarliðir eru teknir saman, það er önnur gjöld og orkukostnaður, má gera ráð fyrir að hann verði samtals um 28 þúsund krónur á mánuði fyrir dæmigerðan bensínbíl árið 2024 en um 14 þúsund fyrir rafmagnsbíl. Munurinn skýrist að mestu af því að jarðefnaeldsneyti er umtalsvert dýrari orkugjafi en rafmagnið auk þess sem eigendur hreinorkubifreiða þurfa ekki að greiða kolefnisgjald.
Grafið hér fyrir neðan sýnir samanburð á helstu kostnaðarliðum vegna bensínbíls og rafmagnsbíls árið 2024 að viðbættu 6 kr. kílómetragjaldi. Miðað er við meðaleyðslu og meðalakstur fólksbíla 2022.
Já, stefna stjórnvalda að greiða götu rafmagnsbíla hér á landi gildir áfram í því skyni að niðurgreiða innkaupsverðið til kaupenda þar sem það er ennþá nokkuð hærra en á við um aðrar gerðir bifreiða. Árið 2024 verður fyrirkomulaginu á þessum ívilnunum breytt í það horf að veittir verða sérstakir styrkir til fyrstu kaupa á nýjum rafmagnsbílum. Þetta breytta fyrirkomulag á niðurgreiðslunum kemur í stað afsláttar á virðisaukaskatti sem veittur hefur verið. Markmiðið með breytingunni er að gera stuðninginn markvissari og gagnsærri. Með því að smella hér má nálgast umfjöllun umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytisins um nýja fyrirkomulagið.
Nei, upptaka kílómetragjalds eða breytingar á því til framtíðar mun ekki hafa áhrif á verðlagsvísitölu þar sem um er að ræða almennan skatt fyrir afnot af vegakerfinu.
Nei. Slíkar fyrirætlanir eru ekki hluti af fyrirhugaðri kerfisbreytingu á árinu 2024.
Ísland er leiðandi í orkuskiptum. Til marks um það var meira en helmingur nýskráðra bíla árið 2023 rafmagns- eða tengiltvinnbílar. Dísil- og bensínbílar hafa orðið sífellt sparneytnari og á síðustu árum hefur hraði orkuskipta aukist. Til að ná markmiðum í loftslagsmálum stefnir Ísland að orkuskiptum og að verða óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040. Þar af leiðandi verður innflutningi á bílum sem ganga fyrir olíu og bensíni hætt árið 2030. Þessi stefna þýðir að núverandi fjármögnunarkerfi verður ósjálfbært og styður ekki við uppbyggingu vegainnviða til framtíðar.
Unnið er að heildstæðri framtíðarsýn sem miðar að því að samræma alla fjármögnun og gjaldtöku vegakerfisins í einu kerfi og gera hana óháða orkugjöfum. Markmiðið er sjálfbært kerfi sem tryggi fjármögnun sem geti staðið undir nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu vegakerfisins til framtíðar.
Verkefnastofa sem starfar í tengslum við stýrihóp á vegum þriggja ráðuneyta, fjármála- og efnahagsráðuneytis, innviðaráðuneytis og forsætisráðuneytis, hefur unnið að ýmsum úrlausnarefnum og undirbúningi í þessu verkefni. Við útfærslu nýs kerfis er unnið samkvæmt skýrum markmiðum, sem eru: samræmi, jafnræði, framtíð, gagnsæi og einfaldleiki. Áhersla er á að verkefnið sé unnið í skrefum til að læra af reynslunni og að tryggja árangursríka innleiðingu.
Frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra til laga um kílómetragjald var samþykkt á Alþingi í desember 2023 og tóku lögin gildi 1.janúar 2024.
Vegir okkar allra
Vegir okkar allra er upplýsingavefur um innleiðingu nýs samræmds kerfis gjaldtöku fyrir notkun vegasamgangna sem Verkefnastofa um tekjur af ökutækjum og umferð leiðir fyrir hönd þriggja ráðuneyta. Verkefnastofan heyrir formlega undir fjármála- og efnahagsráðuneytið en að henni standa einnig innviðaráðuneytið og forsætisráðuneytið. Á vefnum er stuðst við gögn frá: Samgöngustofu, Hagstofu Íslands, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Vegagerðinni og fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Fyrsta skrefið var stigið í byrjun árs 2024 þegar tekið var upp kílómetragjald fyrir notkun rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbíla í flokki fólks- og sendibíla. Gjaldið er 6 kr/km fyrir rafmagns- og vetnisbíla en 2 kr/km fyrir tengiltvinnbíla.
Með kílómetragjaldi verður aukið jafnræði í gjaldtöku fyrir notkun vega. Með innleiðingu gjaldsins fyrir rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbíla árið 2024 eru nú greiddar sambærilegar upphæðir fyrir notkun þeirra og dísil- og bensínbíla. Greitt er fyrir ekna kílómetra og endurspeglar gjaldið því raunverulega notkun á vegasamgöngum með gagnsæjum hætti. Þannig greiða þeir sem nota.
Gjöld greidd á bensíndælu
Nýtt km gjald
Notkunargjald (km gjald)
Notkunargjald (bensíngjöld)
Notkunargjald (kolefnisgjald)
Orkukostnaður
Bifreiðagjald
Virðisaukaskattur
Samanburður á helstu gjöldum og kostnaði vegna reksturs rafmagnsbíls og bensínbíls árið 2024. Miðað er við meðalakstur (14.000 km/ári) og meðaleyðslu fólksbíla árið 2022.
Kílómetragjald er greitt mánaðarlega, ekki ósvipað og greitt er fyrir rafmagn og aðrar veituþjónustur. Mánaðarleg greiðsla miðast við áætlaðan akstur yfir árið. Kílómetrastaða bifreiða er skráð á að minnsta kosti einu sinni á ári.
Næstum helmingi ódýrara er að reka rafmagnsbíl í samanburði við bensínbíl, þrátt fyrir að nú séu greidd sambærileg gjöld fyrir notkun vegakerfisins. Að öllu samanteknu er um 160 þúsund krónum ódýrara á ári að aka um á rafmagnsbíil en meðalbensínbíl. Því er verulegur fjárhagslegur ávinningur af því að velja bifreið sem gengur fyrir hreinorku.