Akstur um allt land
Akstur um allt land

Það er óhætt að segja að Íslendingar séu mikil bílaþjóð, enda er bílaeign hér á landi með því mesta á heimsvísu. Samkvæmt gögnum alþjóðlegum samtökum bílframleiðenda (ACEA) situr Ísland til að mynda í 9. sæti á lista yfir hvar bifreiðaeign er almennust í heiminum, það er að segja ef frá eru talin smáríki á borð við Mónakó. Önnur lönd sem eru ofarlega eru Nýja-Sjáland, Bandaríkin, Kanada og Ítalía sem eiga það öll sammerkt að vegalendir eru miklar og efnahagsleg hagsæld er vel ofan meðaltals. Þrátt fyrir að þær vegalengdir sem landsmenn aka séu mislangar og samgöngumátar ólíkir, eru greiðar og öruggar samgöngur forsenda lífsgæða um land allt.

Meðalakstur svip­aður um allt land

Áhugavert er að skoða gögn Samgöngustofu um meðalakstur í póstnúmerum þar sem fjöldi bíla í eigu einstaklinga er yfir þúsund talsins. Í stuttu máli má segja að meðalakstur bíla sé álíka mikill um allt land óháð staðsetningu þó að vissulega megi sjá mun á milli svæða.

Breyt­ingar hafa áhrif á akst­ur­svenjur

Samfélag nútímans hefur þróast með þeim hætti að fólk horfir í auknum mæli til stærra svæðis þegar kemur að atvinnu en áður var. Þannig má til dæmis segja að suðvesturhornið, allt frá Borgarnesi að Selfossi og út á Suðurnes, sé orðið að einu samfelldu atvinnusvæði. Á sama tíma sinnir nú stærri hópur fólks vinnu sinni að hluta til í fjarvinnu og ferðast því ekki til vinnu daglega. Það verður því áhugavert að fylgjast með hver þróunin verður á næstu árum.

Stærð atvinnu­sókn­ar­svæða hefur áhrif á akstur

Atvinnustarfsemi er gjarnan staðsett miðsvæðis í þéttbýli þar sem einnig hefur byggst upp þjónusta og verslun. Dæmi um þetta er að á höfuðborgarsvæðinu eru fjölmennustu atvinnusvæðin í vesturhluta Reykjavíkur og sömu sögu má segja um marga af stærri þéttbýliskjörnum landsins. Þau sem búa nálægt kjarnanum eða í smærri bæjarfélögum ferðast því oftast styttri vegalengd til þess að sækja þangað. Þau sem búa í úthverfum Reykjavíkur, t.d. austan Reykjanesbrautar og í nágrannasveitafélögum þurfa hins vegar að ferðast að meðaltali lengra en þau sem búa miðsvæðis til þess að sækja þjónustu og atvinnu að kjarna miðbæjarins.

Með bættum samgönguinnviðum milli höfuðborgarsvæðisins og stærstu þéttbýliskjarna Suðurlands, Suðurnesja og Vesturlands tekur nú aðeins um 30-55 mínútur að ferðast á milli. Íbúar þessara svæða hafa því kost á því að sækja atvinnu daglega til höfðuðborgarsvæðisins og gerir það stór hópur daglega. Í tölum Samgöngustofu má sjá að meðalakstur er hvað mestur á þessum svæðum sem bendir til þess að sá hópur sem fer daglega til vinnu á höfuðborgarsvæðinu dragi upp meðaltalið.

Vegir okkar allra

Vegir okkar allra er upplýsingavefur um innleiðingu nýs samræmds kerfis gjaldtöku fyrir notkun vegasamgangna sem Verkefnastofa um tekjur af ökutækjum og umferð leiðir fyrir hönd þriggja ráðuneyta. Verkefnastofan heyrir formlega undir fjármála- og efnahagsráðuneytið en að henni standa einnig innviðaráðuneytið og forsætisráðuneytið. Á vefnum er stuðst við gögn frá: Samgöngustofu, Hagstofu Íslands, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Vegagerðinni og fjármála- og efnahagsráðuneytinu.