Hleðsluinnviðir verði víðar
Ein af þeim stóru áskorunum sem fylgja orkuskiptum í samgöngum er að gera eign rafmagnsbíla almennari um land allt. Þróun síðustu ára sýnir að slík breyting hefur hingað til að mestu átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu og í nærliggjandi sveitarfélögum sem tilheyra sama atvinnusvæði. Þar er lykilatriði að efla hleðsluinnviði, sérstaklega í dreifbýli og ferðamannastöðum. Mikil framför hefur þó orðið á undanförnum árum. Til að mynda varð árið 2018 raunhæfari valkostur að aka hringveginn á rafmagnsbíl þegar hraðhleðslustöð var opnuð við Mývatn, en með henni urðu vegalengdir á milli allra hleðslustöðva við hringveginn innan marka drægni rafmagnsbíla.
Síðan þá hefur hleðslustöðum haldið áfram að fjölga sem hefur gert notkun rafmagnsbíla auðveldari um allt land. Þrátt fyrir þetta er ljóst að enn þörf á enn frekari uppbyggingu hleðsluinnviða til að styðja við áframhaldandi fjölgun rafmagnsbíla.
Rafmagnsbílar verði á allra færi
Sagan sýnir að þegar kemur að innleiðingu tæknibreytinga hafa tekjuhæstu hópar samfélagsins verið í fararbroddi og þannig hefur það einnig verið þegar kemur að rafvæðingu bílaflotans. Upplýsingar frá Hagstofunni sýna að á meðal einhleypra voru 64% rafmagnsbíla í eigu þriggja hæstu tekjutíundanna. Hjá samsköttuðum, það er pörum, var hlutfallið 54%. Hlutfallið fer svo lækkandi eftir tekjuhópum og hjá þremur tekjulægstu hópunum voru 11% hjá einstaklingum og 15% hjá samsköttuðum. Þar af leiðandi er það ákveðin áskorun að gera rafmagnsbílaeign almennari á meðal annarra ökumanna hér á landi.
Þetta bendir til þess að, enn sem komið er, hafi efnahagslegir þættir áhrif á getu til að skipta yfir í rafmagnsbíla. Hins vegar má gera ráð fyrir því að þeir hafi minni áhrif eftir því sem verð á rafmagnsbílum lækkar og fleiri notaðir rafmagnsbílar koma á sölu.
Aukið framboð notaðra rafmagnsbíla skiptir máli
Framboð á notuðum rafmagnsbílum hefur áhrif á möguleika tekjulægri hópa á því að skipta yfir í rafmagnsbíla. Til að tekjulægri hópar geti tekið þátt í orkuskiptunum er mikilvægt að stöðugt framboð verði á notuðum rafmagnsbílum fremur en bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Orkuskiptin byrjuðu ekki af alvöru fyrr en á síðustu þremur til fjórum árum. Af því leiðir að flestir rafmagnsbílar á götunum eru nýlegir og því lítið framboð af notuðum bílum. Á næstu árum má hins vegar gera ráð fyrir einhverjir þeirra sem hafa keypt sér nýja rafmagnsbíla fari að huga að endurnýjun. Það má því gera ráð fyrir því að framboð á notuðum rafmagnsbílum muni aukast smátt og smátt á næstu árum.
Á fyrstu tíu mánuðum ársins 2023 eru tæplega helmingur allra nýskráðra fólksbíla á vegum bílaleiganna. Rafvæðing á flotum bílaleiga er því einnig mikilvægur þáttur í því að tryggja framboð notaðra rafmagnsbíla fremur en framboð ökutækja sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Það er vegna þess að stór hluti notaðra bíla í sölu hér á landi eru tveggja til þriggja ára gamlir fólksbílar úr flota þeirra. Eftir því sem þessi fyrirtæki auka hlutfall rafmagnsbíla í flotum sínum er líklegt að framboð á ódýrari, notuðum rafmagnsbílum aukist. Orkuskipti hjá bílaleigum gætu þannig leitt til þess að rafmagnsbílaeign verði almennari.
Aðlögun kerfa er einnig mikilvæg
Auk þessarar þátta er ljóst að aðlaga þarf íslenskt regluverk og ýmis kerfi að breyttum aðstæðum sem orkuskiptin leiða af sér. Meðal þess er gjaldtaka af umferð sem stendur undir fjármögnun á uppbyggingu og viðhaldi vegainnviða. Til að tryggja greiðar og öruggar samgöngur fyrir framtíð þar sem flestir bílar verða knúnir rafmagni þarf að hverfa frá fjármögnun sem byggir á notkun jarðefnaeldsneytis.
Ísland býr að mörgu leyti við betri aðstæður en önnur ríki til að hefja aðlögun fjármögnunar vegainnviða að orkuskiptum. Auk þess að vera framarlega í orkuskiptum hjálpar til að Ísland er eyja sem hefur enga vegi sem liggja yfir landamæri. Íslenskt stjórnvöld ætla að verða á meðal fyrstu ríkja að hefja þessa aðlögun.