Hraðar breytingar á fimm árum
Tækninni hefur fleygt fram og í dag henta þeir rafmagnsbílar sem aka á vegum landsins íslensku veðurfari mun betur enda eru nú hátt í 23 þúsund slíkir hluti af bílaflota landsmanna. Ekki er þó hægt að segja að mikið hafi farið fyrir rafmagnsbílum á fyrstu 40 árunum sem liðu eftir að fyrsti rafmagnsbíllinn kom hingað til lands. Til að mynda voru þeir minna en 1% af fólksbílum í umferð allt til ársins 2018 þegar hlutfallið fór í 1,3%. Síðan þá hefur hlutfallið aukist nokkuð hratt og í nóvember 2023 eru rafmagnsbílar orðnir um 9% fólksbíla í umferð hér á landi.
Jafnframt var um helmingur allra nýskráðra fólksbíla á Íslandi fyrstu níu mánuði ársins 2023 rafmagnsbílar, rúmlega tveir þriðju ef nýskráningar á vegum bílaleigna eru ekki teknar með. Þessar breytingar hafa ekki átt sér stað í tómarúmi, heldur eru þær hluti af stærri samfélagslegri vegferð sem kallast orkuskipti þar sem skipt er úr jarðefnaeldsneyti yfir í hreina orkugjafa í þágu loftslagsins.
Samhliða þessu hefur uppbygging hleðsluinnviða um allt land gengið vel, þó hún hafi vissulega verið hraðari á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjöldi rafmagnsbíla er mestur.
Góðar aðstæður fyrir orkuskipti á Íslandi
Fjölmargir þættir gera Ísland sérstaklega ákjósanlegt fyrir notkun rafmagnsbíla samanborið við ríki í Vestur-Evrópu og víðar. Í fyrsta lagi er raforka á Íslandi nær eingöngu framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum á borð við vatnsorku og jarðvarma sem gerir akstur rafmagnsbíla á Íslandi umhverfisvænni kost. Raforkan hér á landi er einnig töluvert ódýrari en víðast hvar annars staðar og geta því bíleigendur lækkað rekstrarkostnað bíla sinna töluvert með því að velja rafmagnsbíla fram yfir bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Að auki er öll raforka framleidd á Íslandi því þarf ekki að flytja orku fyrir rafmagnsbíla inn til landsins sem er hagstætt fyrir þjóðarbúið.
Í öðru lagi hafa íslensk stjórnvöld stutt við orkuskipti í vegsamgöngum með aðgerðum og ívilnunum á síðustu árum. Sem dæmi má nefna að engin vörugjöld voru innheimt við kaup á nýjum rafmagnsbílum til loka árs 2022 og er nú einungis greitt 5% vörugjald vegna innflutnings slíkra bíla. Þá hafa kaup á rafmagnsbílum verið undanþegin virðisaukaskatti að hluta eða að öllu leyti og á árinu 2024 er gert ráð fyrir að nýtt styrkjakerfi komi í stað þess. Af rafmagnsbílum er síðan eingöngu greitt lágmarksbifreiðargjald. Einnig hefur verið stutt vel við uppbyggingu hleðsluinnviða, meðal annars með því að endurgreiða virðisaukaskatt af heimahleðslustöðvum og uppsetningu þeirra að fullu.
Tekjuhærri hópar skipta fyrst
Eins og oft þegar kemur að innleiðingu tæknibreytinga hafa skipti yfir í rafmagnsbíla farið hraðar af stað í tekjuhæstu hópum samfélagsins. Gögn frá Hagstofunni sýna að á meðal einhleypra voru 64% rafmagnsbíla í eigu þriggja hæstu tekjutíundanna en hjá samsköttuðum, hjá pörum, var hlutfallið 54%. Þetta bendir til þess að geta til að skipta yfir í rafmagnsbíl hefur stýrst af efnahagslegum þáttum.
Það má þó gera ráð fyrir að draga muni úr áhrifum efnahagslegra þátta á næstu árum. Eftir því sem rafmagnsbílar verða algengari og fleiri notaðir rafmagnsbílar koma á sölu má gera ráð fyrir að gera ráð fyrir að fleiri tekjuhópar eigi greiðari aðgang að því að kaupa slíkan bíl. Þá má gera ráð fyrir því að verð lækki eftir því sem tæknin verður betri, framleiðendum fjölgar og úrval tegunda og framboð verður meira. Almennt er talið að innan mjög fárra ára muni verð á fólks- og sendibílum sem ganga fyrir rafmagni það sama og á hefðbundnum dísil- og bensínbílum.
Ólík þróun eftir landssvæðum
Stærstur hluti rafmagnsbíla á Íslandi, eða um 76%, er staðsettur á höfuðborgarsvæðinu og í sveitarfélögum þar sem um 64% íbúa landsins búa. Utan þessara þéttbýliskjarna dregur úr rafmagnsbílaeign á hverja þúsund íbúa.
Utan höfuðborgarsvæðisins eru flestir rafmagnsbílar á hverja þúsund íbúa í sveitarfélögum eins og Akranesi, Árborg og Reykjanesbæ sem eru hluti af atvinnusóknarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Þessi munur á milli höfuðborgarsvæðisins og annarra landshluta undirstrikar þörfina fyrir uppbyggingu hleðsluinnviða um land allt en þeir innviðir gera einnig akstur einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu út á land að enn raunhæfari kosti.
Samspil aðstæðna og opinbers stuðning
Mikill árangur hefur náðst í orkuskiptum á Íslandi á stuttum tíma. Þó að aðstæður til orkuskipta á Íslandi séu sérstaklega hagstæðar þá hefur stuðningur stjórnvalda einnig skipt miklu máli. Markmið stjórnvalda er að árið 2040 verði orkuskiptum náð og því þarf hlutfall rafmagnsbíla af fólksbílum í umferð að fara úr 9% í 100% á næstu 17 árum. Það er krefjandi verkefni og stór áskorun fyrir stjórnvöld og samfélagið allt.